Enski boltinn

Hermann byrjaður að æfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. Nordic Photos / AFP

Hermann Hreiðarsson er byrjaður að æfa á nýjan leik eftir að hafa jafnað sig á erfiðum meiðslum. Þetta staðfesti Ólafur Garðarsson, umboðsmaður hans, í samtali við Vísi í dag.

Hermann var síðast á mála hjá Portsmouth en samningur hans við félagið rann út í sumar. Hann sleit hásin í leik með liðinu á síðasta keppnistímabili og hefur verið í stífri endurhæfingu síðan.

Talið var líklegast að Hermann myndi aftur semja við Portsmouth en ekkert hefur orðið af því, enn sem komið er.

„Það eru engar strangar viðræður í gangi [við Portsmouth] en það er enn allt opið," sagði Ólafur í dag. „Hann er hins vegar í góðu formi og er byrjaður að æfa með bolta."

„Ef hann væri á mála hjá liði væri hann búinn að spila með varaliðinu," bætti hann við og sagði það vissulega hafa háð þessu ferli að hann hefur ekki fengið tækifæri til að sýna sig inn á vellinum eftir meiðslin.

Ólafur segir þó að þeir séu ekki stressaðir fyrir framhaldinu. „Okkur liggur ekki mikið á og erum alveg rólegir. Þetta dettur inn á næstu vikum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×