Fótbolti

Ný aðferð til að taka víti dæmd ólögleg í Japan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hisato Sato er hér til vinstri á myndinni.
Hisato Sato er hér til vinstri á myndinni. Mynd/Getty Images
Japanska knattspyrnusambandið hefur úrskurðað að tveir leikmenn japanska liðsins Hiroshima Sanfrecce, Tomoaki Makino og Hisato Sato, hafi brotið reglurnar þegar þeir tóku saman víti og komu bæði mótherjunum og dómaranum á óvart í deildarleik á dögunum.

Hiroshima Sanfrecce fékk vítaspyrnu á þriðju mínútu leiksins. Varnarmaðurinn Tomoaki Makino stillti boltanum upp á vítapunktinn og bakkaði síðan út fyrir teig og þá kom allt í einu sóknarmaðurinn Hisato Sato aðvífandi, tók vítið og skoraði. Markvörður Shimizu S-Pulse stóð frosinn í markinu enda bjuggust allir við að Makino væri að fara að taka vítið.

Japanska knattspyrnusambandið hefur nú komist að því að vítið hafi verið ólöglegt því það er ekki leyfilegt að leyna því hver tekur vítið. Leikmennirnir sleppa báðir við refsingu en dómari leiksins, Takuto Okabe, fær hinsvegar tveggja leikja bann fyrir að dæma vítið gilt.

Það er mat Japanana að um leið og Hisato Sato hljóp inn í teiginn þá átti dómarinn að dæma aukaspyrnu á hann og gefa honum gult spjald fyrir óíþróttamannslega hegðun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×