Fótbolti

Ronaldo biðst afsökunar á því að hafa sýnt stuðningsmönnunum fingurinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Ronaldo.
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Ronaldo. Mynd/AFP
Brasilíski knattspyrnumaðurinn Ronaldo brást illa við þegar hann mætti þrjátíu örgandi stuðningsmönnum Corinthians á bílastæðinu eftir tap Corinthians á móti Paulista í Sao Paulo deildarkeppninni i fyrrinótt.

Stuðningsmennirnir öskruðu niðrandi orð að Ronaldo og kölluðu hann meðal annars fitubollu. Ronaldo reiddist við þetta og sýndi þeim fingurinn sem einn ljósmyndarinn náði á mynd.

Ronaldo kom síðar fram og baðst afsökunar á framkomu sinni og sagðist hafa verið að bregðast við persónulegum leiðindum og móðgandi ummælum umræddra manna á bílastæðinu. Hann fór ekkert nánar út í það sem þeir kölluðu í átt að honum.

„Ég myndi aldrei sýna stuðningsmönnum Corinthians fingurinn því þeir hafa tekið einstaklega vel á móti mér síðan að ég kom hingað. Ég vil biðjast afsökunar ef ég móðgaði einhverja stuðningsmenn Corinthians með þessu. Ég dáist af þeim," sagði Ronaldo sem hefur ekki fundið sig á þessu ári og er aðeins með 2 mörk í 9 leikjum.

Ronaldo sem er orðinn 33 ára var mjög slakur í leiknum á móti Paulista og viðurkenndi það. „Ég gerði barnaleg mistök í þessum leik," sagði Ronaldo hreinskilinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×