Erlent

Trúboðinn á Haítí laus úr haldi

Laura Silsby var fundin sek um að hafa ætlað  33 börnum frá Haítí eftir jarðskjálftann í janúar. Hún er laus úr haldi. Mynd/AP
Laura Silsby var fundin sek um að hafa ætlað 33 börnum frá Haítí eftir jarðskjálftann í janúar. Hún er laus úr haldi. Mynd/AP

Bandarískur trúboði hefur verið fundinn sekur um að hafa ætlað að smygla 33 börnum frá Haítí eftir jarðskjálftann mikla fyrr á árinu.

Tíu trúboðar frá Idaho í Bandaríkjunum voru handteknir við landamærin að Dóminíska lýðveldinu 17 dögum eftir jarðskjálftann á Haítí sem kostaði yfir 230 þúsund íbúa landsins lífið. Trúboðanir voru með 33 haítísk börn og voru sakaðir um að hafa rænt þeim. Sjálfir sögðust þeir hafa ætlað að flytja börnin á munaðarleysingahæli sem þeir væru að koma upp í Dóminíska lýðveldinu. Bandaríkjamennirnir höfðu hins vegar engin skjöl meðferðis sem heimiluðu þeim að flytja börnin úr landi. Síðar kom í ljós að minnsta kosti tvö af hverjum þremur börnum úr hópnum áttu foreldra á lífi.

Búist var að trúboðarnir yrðu hverjir fyrir sig ákærðir fyrir bæði mannrán og aðild að glæp en einungis Laura Silsby, leiðtogi hópsins, var ákærð. Hinum nýju var sleppt úr haldi um miðjan febrúar og yfirgáfu þau landið í framhaldinu.

Í fyrstu var Silsby ákærð fyrir mannrán en síðar var ákærunni breytt og henni gert að sök að hafa ætlað að smygla börnunum úr landi. Hún hlaut í gær þriggja mánaða og átta daga fangelsisdóm en það er sá tími sem hún hefur setið í varðhaldi eftir að upp komst um málið. Eftir að dómari kvað upp úrskurðinn sótti Silsby eigur sínar í fangaklefa og hélt því næst rakleiðis á flugvöllinn í höfuðborginni Port-au-Prince. Hún þakkaði Guði fyrir að vera laus úr haldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×