„Ég datt aldrei á hausinn en ég var ansi oft mjög nálægt því," segir plötusnúðurinn Margeir Ingólfsson sem hélt sitt fyrsta diskókvöld í fimm ár á skemmtistaðnum Austur á annan í jólum.
Hann og Jón Atli Helgason, sem skipulagði viðburðinn með honum, tóku á móti gestum á rúlluskautum í stuttbuxum og hlýrabolum við mjög góðar undirtektir viðstaddra.
„Við vorum búnir að plana með smá fyrirvara að gera þetta. Svo fékk ég bara skautana í gær [í fyrradag] og þetta var í fyrsta skipti sem ég hef stigið í skauta á ævinni. Það var ákveðin skemmtun fólgin í því að sjá mig spreyta mig á þeim," segir Margeir og hlær.
„Þetta var mun erfiðara en ég bjóst við en þetta var skemmtilegt. Maður á víst alltaf að skauta ljósahringinn sem diskókúlan gerir. Við náðum því alveg og öðrum trixum líka, þar á meðal „high five" þegar við fórum fram hjá hvor öðrum."
Diskókvöldið gekk vel, húsið var troðfullt og stemningin góð. Urður Hákonardóttir, fyrrum söngkona Gus Gus, steig óvænt upp á svið og söng diskóslagarann Don"t Leave Me This Way.
„Hún er algjör diskódíva og leysti þetta með miklum glæsibrag," segir Margeir.
Aðspurður hvort annað diskókvöld verði haldið að ári segir hann:
„Það verður að koma í ljós, þetta var alla vega eitt „kombakk" en það er aldrei að vita."
- fb