Innlent

Vændiskaupendur í felum

Aðeins einn meintur vændiskaupandi af ellefu ákærðum mætti við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, þegar myndin var tekin.
Aðeins einn meintur vændiskaupandi af ellefu ákærðum mætti við þingfestingu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, þegar myndin var tekin. Frettabladid/Stefán

Aðeins einn sakborningur í vændiskaupamálinu svonefnda mætti í dómsal í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar mál á hendur ellefu meintum vændiskaupendum voru þingfest í gær. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins biðu einhverjir hinna sakborninganna í nágrenni dómhússins, þar sem verjendur þeirra höfðu gert þeim viðvart um að fjölmiðlar væru mættir í héraðsdóm.



Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kærði upphaflega sautján manns fyrir kaup á vændi á vegum Catalinu Mikue Ncogo, sem nú bíður dóms. Kærurnar voru lagðar fram á grundvelli símhlerana og fleiri gagna sem aflað var með húsleitum. Ríkissaksóknari hefur nú ákært ellefu þeirra, eins og áður sagði. Hinir sex, sem ekki voru ákærðir neituðu staðfastlega sök, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.



Kaup á vændi eru brot á ákvæði almennra hegningarlaga. Í ákvæðinu segir að hver sem greiði eða heiti greiðslu eða annars konar endurgjaldi fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins greiddu kaupendur um tuttugu þúsund krónur fyrir þjónustuna í hvert skipti. jss@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×