Fótbolti

Nær Villa að skora í fimmta leiknum í röð?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Villa fagnar í kvöld.
David Villa fagnar í kvöld. Nordic Photos / AFP
Spánverjinn David Villa hefur skorað í fjórum leikjum í röð í úrslitakeppni HM og er nú markahæsti leikmaður keppninnar með alls fimm mörk. Hann tryggði sínum mönnum 1-0 sigur á Úrúgvæ í fjórðungsúrslitum HM í Suður-Afríku í dag.

Hann hefur þar með jafnað markamet Emilio Butragueno sem skoraði einnig fimm mörk fyrir spænska landsliðið á HM í Mexíkó árið 1986.

Villa á einnig möguleika á að jafna met þeirra Just Fontaine og Jairzinho sem skoruðu í sex leikjum í röð í úrslitakeppni HM á sínum tíma.

Fontaine skoraði í sex leikjum í röð fyrir franska landsliðið á HM í Svíþjóð árið 1958. Þá skoraði hann alls þrettán mörk í einni og sömu keppninni en það met verður sennilega seint slegið.

Jairzinho lék þennan leik eftir með landsliði Brasilíu árið 1970 og Villa getur nú bæst í þennan hóp með því að skora í undanúrslitunum gegn Þýskalandi og aftur um næstu helgi, annað hvort í úrslitaleiknum eða leiknum um þriðja sætið.

Þjóðverjinn Miroslav Klose á einnig möguleika að jafna annað markamet í sögu heimsmeistarkeppninnar. Klose skoraði tvisvar í 4-0 sigri Þýskalands á Argentínu í dag og vantar nú aðeins eitt mark upp á að jafna markamet Brasilíumannsins Ronaldo sem skoraði alls fimmtán mörk í úrslitakeppni HM á ferlinum.

Þjóðverjarnir Klose og Gerd Müller eru nú saman í öðru sæti á þessum lista með fjórtán mörk en næstir koma þeir Fontaine með þrettán og Pele með tólf.

Klose lék sinn 100. landsleik með Þýskalandi í dag og hélt upp á þann áfanga með viðeigandi hætti. Hann er fimmti maðurinn í sögu þýska landsliðsins sem nær svo mörgum leikjum með landsliðinu. Hinir eru Jürgen Kohler, Jürgen Klinsmann, Thomas Hässler og Lothar Matthäus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×