Enski boltinn

Eiður Smári sat á bekknum í jafntefli Tottenham og Aston Villa

Ómar Þorgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen sat á bekknum hjá Tottenham í kvöld.
Eiður Smári Guðjohnsen sat á bekknum hjá Tottenham í kvöld. Nordic photos/AFP

Tottenham og Aston Villa gerðu markalaust jafntefli á White Hart Lane-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Eiður Smári Guðjohnsen var á varamannabekk Tottenham og kom ekkert við sögu í leiknum.

Leikurinn var fremur tíðindalítill framan af en eitthvað var þó um hálffæri hjá báðum liðum. Jermain Defoe fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar hann var nálægt því að koma heimamönnum yfir þar sem hann lúrði á fjærstönginni en náði ekki koma skoti sínu á markið. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Seinni hálfleikur fór einnig fremur rólega af stað og bæði liðin voru heldur vör um sig enda mikilvægt fyrir bæði lið í baráttunni um meistaradeildarsæti að tapa leiknum ekki.

Tottenham var þó sterkari aðilinn þegar líða tók á seinni hálfleikinn og sóttu stíft eftir sigurmarkinu en Aston Villa varðist af mikilli hörku. Tottenham vildi fá vítaspyrnu á 86. mínútu þegar Defoe féll í teignum en dómarinn kaus að flauta ekki.

Defoe var aftur á ferðinni á 89. mínútu en Brad Friedel var vel á verði í markinu. Peter Crouch komst svo nálægt því að tryggja heimamönnum sigurinn en hælspyrna hans úr teignum fór rétt framhjá marki Aston Villa.

Leikurinn fjaraði svo smátt og smátt út eftir það en jafnteflið þýðir að Liverpool heldur fjórða sætinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×