Enski boltinn

Aaron Ramsey farinn að stíga í fótinn aðeins mánuði eftir fótbrot

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Ramsey liggur hér fótbrotinn á vellinum eftir tæklingu Ryan Shawcross.
Aaron Ramsey liggur hér fótbrotinn á vellinum eftir tæklingu Ryan Shawcross. Mynd/Getty Images
Aaron Ramsey, miðjumaður Arsenal sem tvífótbrotnaði í leik á móti Stoke City fyrir mánuði síðan er á góðum batavegi. Ramsey er búinn að leggja hækjunum og farinn að stíga í fótinn á nýjan leik.

Hinn 19 ára gamli velski landsliðsmaður fótbrotnaði eftir svakalega tæklingu frá Ryan Shawcross í umræddum leik á móti Stoke. Hann er kominn aftur til London eftir að hafa eytt tíma heima fyrir í Caerphilly.

„Maður gerir sér ekki grein fyrir því hvað maður saknar mikið fótboltans fyrr en maður er frá keppni í langan tíma," sagði Aaron Ramsey í viðtali á heimasíðu Arsenal.

„Dagarnir verða bara innantómir og leiðinlegir svo að ég get ekki beðið eftir að halda áfram í endurhæfingunni og komast aftur í baráttuna," sagði Ramsey.

„Þetta atvik var mikið sjokk fyrir alla en liðið sýndi mikinn styrk með því að halda haus og vinna þennan leik. Þeir hafa síðan haldið góðum dampi síðan og vonandi heldur það áfram," sagði Ramsey sem ætlar að eyða næstu dögum í fríi í Dubai.

„Ég vil verða meistari alveg eins mikið og liðsfélagar mínir og vonandi geta þeir unnið titilinn fyrir okkur alla," sagði Aaron Ramsey en nýjasti lykilmaður Arsenal til að meiðast illa var fyrirliðinn Cesc Fabregas sem verður ekkert meira með á tímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×