Lífið

Dæmir í bandarískri fegurðarsamkeppni

Baldvin Jónsson hefur unnið að markaðssetningu lambakjöts í Bandaríkjunum en vendir sínu kvæði í kross um helgina og dæmir í fegurðarsamkeppni. Hann fetar þar með í fótspor Ingibjargar Egilsdóttur, sem var dómari í fyrra.
fréttablaðið/heiða
Baldvin Jónsson hefur unnið að markaðssetningu lambakjöts í Bandaríkjunum en vendir sínu kvæði í kross um helgina og dæmir í fegurðarsamkeppni. Hann fetar þar með í fótspor Ingibjargar Egilsdóttur, sem var dómari í fyrra. fréttablaðið/heiða
„Ég sagði nú einhvern tíma að það hefðu verið fegurðarsamkeppnir sem komu manni á bragðið með lambið,“ segir Baldvin Jónsson, verkefnastjóri hjá Bændasamtökunum.

Baldvin hefur verið fenginn til að dæma í fegurðarsamkeppninni Miss Sinergy sem hefst í Washington í dag. Baldvin hefur unnið að markaðssetningu lambakjöts og annarra íslenskra matvæla undanfarin ár auk þess að koma að skipulagningu Food and Fun-hátíðar­innar. Þá er hann ekki ókunnugur dómnefndar­störfunum og var um árabil dómari í Ungfrú Ísland.

„Ég átta mig ekki á hvers vegna ég var beðinn um að taka þetta að mér en þetta er mikill heiður,“ segir Baldvin. „Keppnin er mikill viðburður hérna í borginni, þar sem er verið að fara að safna fjármunum fyrir brjóstakrabbameinsrannsóknir. Gríðarlega miklum fjármunum er safnað í kringum þessa miklu hátíð.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Íslendingur er á meðal dómara í keppninni, því eins og Fréttablaðið greindi frá í fyrra var fegurðardrottningin og fyrirsætan Ingibjörg Egilsdóttir dómari í fyrra. Henni hefur verið boðið að vera sérstakur heiðursgestur í ár.

En ætlarðu að gefa keppendunum að borða? „Nei, við erum ekki komin svo langt að við eigum fyrir því,“ segir Baldvin. „Það hefði verið mjög snjallt að hafa íslenskan mat á boðstólnum, en það gerist kannski á næsta ári.“ - afb





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.