Enski boltinn

Eiður Smári aðeins með 13 deildarmörk á síðustu fimm árum

Hörður Magnússon skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/Nordic Photos/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen hefur ekki verið á skotskónum síðustu tímabil sín þar sem hann hefur spilað með Barcelona, Mónakó og Stoke. Markaleysi Eiðs Smára kom vel fram í samantekt Harðar Magnússonar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur aðeins skorað 13 deildarmörk í 122 leikjum á rúmlega fimm árum með liðum sínum.

Tölurnar tala sínu máli og eru sláandi fyrir framherjann. Síðasta tímabilið með Chelsea 2005/2006 skoraði hann aðeins tvö mörk í 26 leikjum.

Eiður lék þrjú tímabil með Barcelona og skoraði fimm mörk fyrsta tímabilið og fimm mörk næstu tvö í samanlagt 72 deildarleikjum á þremur árum.

Dvöl kappans hjá Mónakó var skammvinn og árangurslaus. Ekkert mark í níu leikjum.

Mónakó lánaði Eið til Tottenham í janúar á þessu ári. Eiður afrekaði eitt mark í ellefu deildarleikjum.

Stoke fékk hann til félagsins fyrir þetta tímabil og tækifærin hafa verið fá. Hann hefur komið inn á sem varamaður í fjórum leikjum og leikið í samanlagt 86 mínútur og aldrei verið í byrjunarliðinu.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur því aðeins skorað 13 deildarmörk í 122 leikjum á rúmlega fimm árum með liðum sínum.

Eiður átti frábær fimm fyrstu tímabil með Chelsea og skoraði 52 deildarmörk í 160 leikjum en síðan hefur leiðin legið niður á við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×