Erlent

Friðarverðlaunum Nóbels stolið

Óli Tynes skrifar

Óljóst er hvort hægt verður að afhenda friðarverðlaun Nóbels hinn 10. desember næstkomandi. Afhendingarhátíðin mun engu að síður fara fram í ráðhúsinu í Osló. Vandinn er sá að verðlaunahafinn Liu Xiaobo situr í fangelsi í Kína og verður ekki sleppt þaðan í bráð. Eiginkona hans og lögfræðingur fá heldur ekki fararleyfi. Því gæti verið vandasamt að finna einhvern til þess að taka á móti verðlaununum.

Norðmenn vilja fara að öllu með gát við að finna staðgengil því sporin hræða. Árið 1935 voru verðlaunin veitt þýska friðarsinnanum Carl von Ossietzky. Hann sat þá í fangelsi fyrir njósnir og föðurlandssvik. Sök hans var að hafa birt upplýsingar um meint brot Þjóðverja á Versalasamningnum. Þar var greint frá uppbyggingu flughersins sem síðar varð Luftwaffe og því að herflugmenn væru þjálfaðir í Sovétríkjunum.

Þar sem Ossietzky átti ekki heimangengt tók lögfræðingur nokkur að sér að veita friðarverðlaununum viðtöku. Hann tók við bæði heiðursskjalinu og peningunum við hátíðlega athöfn. Hann stakk svo af með hvorttveggja og hefur ekki sést síðan.

Þess má geta að árið 1990 reyndi dóttir Ossietzkys að fá dóminum um föðurlandssvik hans og njósnir hnekkt. Árið 1992 staðfesti hinsvegar hæstiréttur Þýskalands dóminn. Sá dómur er endanlegur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×