Enski boltinn

Benítez farinn að efast um andlegu hliðina hjá Aquilani

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alberto Aquilani og Rafael Benítez.
Alberto Aquilani og Rafael Benítez. Mynd/Getty Images
Rafael Benítez, stjóri Liverpool, virðist vera farinn að missa þolinmæðina gagnvart Ítalanum Alberto Aquilani sem hann keypti á 20 milljónir punda frá Roma síðasta haust. Alberto Aquilani er enn á ný meiddur á ökkla en hann hefur aðeins byrjað átta leiki Liverpool-liðsins á tímabilinu.

Benítez ýjaði að því að meiðsla-vandamál Alberto Aquilani væru meira andleg en líkamleg en Alberto Aquilani hefur kvartað mikið undan sama ökklanum og var gerð aðgerð á síðasta sumar. Alberto Aquilani missti af þeim sökum af fyrstu þremur mánuðum tímabilsins.

Rafael Benítez segist ekkert skilja í Aquilani eða hvenær þessi 25 ára miðjumaður nái loksins að komast yfir þessi meiðsli. „Hann var að kvarta undan verk í ökklanum og sagðist ekki geta æft. Við verðum að ræða við læknana okkar og fá að vita hvað er í gangi því ég hef ekki hugmynd um hvað er að angra hann," sagði Rafael Benítez.

„Við vitum ekki hvort hann þurfi að fara í aðra aðgerð en hann finnur fyrir verk í ökklanum. Sumir leikmenn geta spilað í gegn sársaukann en sumir geta það ekki," sagði Rafael Benítez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×