Fótbolti

Sneijder líklegastur til að hreppa gullbolta FIFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wesley Sneijder
Wesley Sneijder Mynd/Nordic Photos/Getty
Hollendingurinn Wesley Sneijder þykir líklegastur til að hljóta fyrsta gullbolta FIFA sem eru ný verðlaun sambandsins fyrir besta knattspyrnumann ársins í heiminum. FIFA gaf í gær út lista með þeim 23 leikmönnum sem koma til greina í kjörinu sem verður tilkynnt í byrjun næsta árs.

Wesley Sneijder var aðalmaðurinn á bak við þrefaldan sigur ítalska liðsins Inter Milan á síðustu leiktíð (deild, bikar og Meistaradeild) auk þess að spila stórt hlutverk með silfurliði Hollands á HM í Suður-Afríku.

Auk Sneijder ættu Spánverjarnir Xavi og Andres Iniesta að eiga ágæta möguleika á því að vera kosnir sá besti í heiminum fyrir árið 2010 en þeir gætu hinsvegar tekið mikið af atkvæðum frá hvorum öðrum. Það ætti að hjálpa Hollendingnum í kjörinu.

Lionel Messi er handhafi beggja verðlaunanna sem sameinast núna undir merkjum gullbolta FIFA en það voru verðlaun France Football (blaðamenn) og verðlaun FIFA (Landsliðsþjálfarar og landsliðsfyrirliðar). Messi kemur því til greina en hann átti frábært ár með Barcelon en gekk ekki alveg eins vel með argentínska landsliðinu.

Leikmenn sem stóðu sig vel á HM í Suður-Afríku eru mjög áberandi á listanum og það hefur verið venjan að stjörnur heimsmeistarakeppninnar hafa fengið umrædd verðlaun. Sneijder skoraði fimm mörk á HM og var valinn maður leiksins í fjórum leikjum.



Líklegastir til að hreppa gullbolta FIFA samkvæmt William Hill veðbankanum:


Wesley Sneijder 6/4

Xavi 7/2

Lionel Messi 4/1

Andres Iniesta 11/2

David Villa 9/1

Diego Forlan 16/1

Thomas Muller 33/1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×