Fótbolti

Dundee FC rambar á barmi gjaldþrots

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dens Park, heimavöllur Dundee FC.
Dens Park, heimavöllur Dundee FC. Nordic Photos / Getty Images
Skoska knattspyrnufélagið Dundee FC er í miklum fjárhagskröggum vegna vangoldinna skattgreiðslna. Leikmenn og aðrir starfsmenn félagsins fengu ekki launin sín greidd í dag eins og von var á.

Dundee leikur í skosku B-deildinni en liðið hefur einu sinni í sögu félagsins unnið skoska meistaratitilinn. Það var árið 1962. Félagið var stofnað árið 1893.

Félagið sagði í dag að vangoldin laun yrðu greidd út í næstu viku en að það eigi nú í viðræðum við skattayfirvöld um skuld félagsins.

Talið er að framtíð félagsins ráðist á því hvort að einn helsti velunnari félagsins, Calum Melville, muni taka á sig hluta skuldarinnar en fyrirtæki í bænum hafa einnig safnað 75 þúsund pundum upp í skuldina sem er samtals 365 þúsund pund.

Staða Dundee FC er þó slæm og skuldar félagið nokkrum aðilum samtals 1,6 milljón punda, þeirra á meðal áðurnefndum Melville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×