Fótbolti

Dunga hunsar gagnrýni Cruyff

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu.
Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu. Nordic Photos / Getty Images
Dunga, landsliðsþjálfari Brasilíu, gefur lítið fyrir gagnrýni Johan Cruyff sem sagðist ekki vilja borga sig inn á leiki brasilíska landsliðsins í dag.

Holland og Brasilía mætast í fjórðungsúrslitum HM í dag. Cruyff gagnrýndi brasilíska liðið og sagði það spila leiðinlega knattspyrnu, ólíkt því sem þekktist hjá liðinu á árum áður.

Dunga hefur reyndar verið gagnrýndur fyrir þetta undanfarna mánuði en lætur sér fátt um finnast.

„Hann ræður því sjálfur hvort hann borgi sig inn á leikinn eða ekki. Það er í boði að sjá marga leiki og lýðræðið gerir það að verkum að hann getur valið á milli leikja."

„En ég er viss um að Cruyff mun hvort eð er ekki borga fyrir sig og því getur hann horft á leikinn ef hann vill."

„Afi minn sagði að á hans dögum var knattspyrnan stórkostleg. Faðir minn sagði það sama, ég segi það sama og ég er viss um að sonur minn og barnabarn gera það líka," sagði Dunga sem á von á góðum knattspyrnuleik í dag.

„Bæði lið vilja spila sóknarbolta og bæði lið munu reyna að skora því bæði lið vilja vinna leikinn. Þegar þannig er má búast við frábærum knattspyrnuleik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×