Enski boltinn

Guardian: Bridge ætlar að hætta í enska landsliðinu útaf Terry

Ómar Þorgeirsson skrifar
Wayne Bridge og John Terry í leik með Chelsea á sínum tíma.
Wayne Bridge og John Terry í leik með Chelsea á sínum tíma. Nordic photos/AFP

Samkvæmt heimildum The Guardina þá mun Wayne Bridge ekki ætla að gefa kost á sér til þess að fara með enska landsliðinu á lokakeppni HM næsta sumar. Ástæðan er einföld að sögn dagblaðsins.

Hann vill ekki deila sama búningsherbergi og fyrrum liðsfélagi hans John Terry sem olli miklu fjaðrafoki á dögunum þegar upp komst um framhjáhald hans með barnsmóður og fyrrum kærustu Bridge.

Terry var sem kunnugt er sviptur fyrirliðastöðunni hjá enska landsliðinu í kjölfarið og þrátt fyrir umfjöllun fjölmiðla síðustu vikur þess efnis að Bridge sé tilbúinn að ganga að sáttum við Terry þá mun það alls ekki vera svo.

Bridge og Terry verða hins vegar í sviðsljósinu þegar lið þeirra, Manchester City og Chelsea, mætast um helgina Stamford Bridge-leikvanginum en staðfest hefur verið að landsliðsþjálfarinn Fabio Capello verði á meðal áhorfenda þar.

Capello hefur líst því yfir að hann vonist til þess að Bridge hætti ekki í landsliðinu þar sem enska landsliðið er fremur fátækt af góðum vinstri bakvörðum eftir að Ashley Cole meiddist illa á dögunum og því væri mikið áfall fyrir Capello ef Bridge myndi ekki gefa kost á sér eftir allt saman.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×