Enski boltinn

Liverpool náði aðeins jafntefli á móti Birmingham - 4 stigum á eftir City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liam Ridgewell skorar hér jöfnunarmark Birmingham framhjá Pepe Reina.
Liam Ridgewell skorar hér jöfnunarmark Birmingham framhjá Pepe Reina. Mynd/Getty Images
Liverpool náði aðeins 1-1 jafntefli á móti Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í dag en heimamenn hafa þar með náð stigi á heimavelli á móti öllum efstu liðunum í deildinni. Liverpool tapaði dýrmætum stigum í baráttunni um Meistaradeildarsæti og staða liðsins er nú ekki góð.

Birmingham náði einnig jafntefli á móti Chelsea (0-0), Manchester United (1-1), Arsenal (1-1), Manchester City (0-0) og Tottenham (1-1) á þessu tímabili.

Steven Gerrard kom Liverpool í 1-0 í upphafi síðari hálfleiks en Liam Ridgewell jafnaði metin níu mínútum síðar.

Rafael Benitez, stjóri Liverpool, tók Fernando Torres útaf á 65. mínútu og hvorki varamanni hans David Ngog eða öðrum Livepool-mönnum tókst að skora sigurmarkið þrátt fyrir mörg upplögð færi á lokakafla leiksins.

Liverpool er þar með fjórum stigum á eftir Manchester City sem situr nú í hinu eftirsótta fjórða sæti. Tottenham er þremur stigum á undan Liverpool og bæði Tottenham og City hafa leikið leik færra en Liverpool.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×