Enski boltinn

Burnley á hraðferð niður - Tap á heimavelli fyrir Blackburn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Michael Salgado og David Nugent ekki sáttir við hvorn annan.
Michael Salgado og David Nugent ekki sáttir við hvorn annan.

Falldraugurinn virðist hafa hreiðrað vel um sig á Turf Moor. Burnley tapaði 0-1 fyrir Blackburn í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í dag. Liðið er í 19. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Hull og West Ham.

David Dunn skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Blackburn byrjaði betur og forysta þeirra var verðskulduð en vítaspyrnudómurinn þó ekki réttur.

Martin Olsson lét sig falla áður en einhver snerting var og dómarinn féll í gildruna. Fleiri mörk voru ekki skoruð og Blackburn stökk upp í tíunda sæti deildarinnar.

Jóhannes Karl Guðjónsson var ekki í leikmannahópi Burnley sem hefur verið í frjálsu falli síðan Brian Laws var ráðinn knattspyrnustjóri liðsins. Sú ráðning verður að teljast ein sú allra sérstakasta í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Klukkan 15 hefst leikur Liverpool og Sunderland og verður hann að sjálfsögðu sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×