Fótbolti

Löw: Nánast fullkominn leikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Joachim Löw ásamt Philipp Lahm eftir leikinn í dag.
Joachim Löw ásamt Philipp Lahm eftir leikinn í dag. Nordic Photos / AFP
Joachim Löw sagði að leikur sinna manna í þýska landsliðinu hafi verið nánast fullkominn er þeir gerðu sér lítið fyrir og slátruðu afar sterku landsliði Argentínu, 4-0.

Þar með er Þýskaland komið í undanúrslit HM í Suður-Afríku en Argentína, með Diego Maradona sem landsliðsþjálfara, heldur nú heim á leið.

„Liðið var nánast fullkomið í dag," sagði Löw. „Þetta eru ótrúleg úrslit því Argentína er með sterka vörn. Það var framúrskarandi að hafa náð að skora svona mörg mörk."

Thomas Müller kom Þjóðverjum á bragðið í dag með fyrsta marki leiksins strax á þriðju mínútu.

„Það er algert brjálæði að vinna Argentínu 4-0. Maður er nánast orðlaus yfir þessu," sagði Müller. „Ég held að Þýskaland titri í dag og það er viðeigandi að fagna þessum sigri á þann máta."

Müller verður þó ekki með Þýskalandi í undanúrslitum þar sem hann fékk sína aðra áminningu í keppninni í dag.

„Það er mikið áfall fyrir okkur því hann hefur sýnt hversu hættulegur hann er," sagði Löw. „Ég sá að hann fékk áminningu en skildi ekki fyrir hvað. Ég set stórt spurningamerki við gula spjaldið."

Bastian Schweinsteiger skoraði ekki í dag en var valinn maður leiksins.

„Maður fær gæsahúð þegar maður sér hvernig fólkið heima er að fagna þessum sigri. Það getur nú verið að við þurfum að spila við Spánverja næst en ég tel að þeir séu með besta lið í heimi. En við erum líka góðir og höfum trú á okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×