Fótbolti

Suarez gæti fengið lengra bann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dómarinn sýnir Luis Suarez rauða spjaldið í gær.
Dómarinn sýnir Luis Suarez rauða spjaldið í gær. Nordic Photos / AFP
Svo gæti farið að Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, úrskurði Úrúgvæann Luis Suarez í meira en eins leiks bann vegna rauða spjaldsins sem hann fékk í leik Úrúgvæ og Gana í gær.

Suarez varði boltann með höndunum á marklínu í lok framlengingar leiksins. Víti var dæmt og Suarez fékk rautt. Ganverjinn Asamoah Gyan misnotaði hins vegar vítaspyrnuna og var leikurinn því næst flautaður af. Úrúgvæ hafði svo betur í vítaspyrnukeppni.

„Leikmenn fara sjálfkrafa í bann fyrir rautt spjald," sagði Pekka Odriozola, talsmaður FIFA. „Aganefndin mun líka taka málið fyrir og taka ákvörðun um refsinguna."

Aganefndin getur dæmt Suarez í lengra bann fyrir óíþróttamannslega hegðun. Ljóst er að hann mun ekki spila í undanúrslitum keppninnar þar sem liðið mætir Hollandi. En nú gæti verið að hann missi einnig af annað hvort úrslitaleiknum eða leiknum um þriðja sæti keppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×