Enski boltinn

Hermann afar ósáttur með eigendur Portsmouth

Ómar Þorgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. Mynd/Arnþór

Landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson er allt annað en sáttur með eigendur Portsmouth en leikmenn og aðrir starfsmenn félagsins hafa ekki enn fengið laun sín greidd fyrir janúar.

Þetta er í fjórða sinn á tímabilinu sem félagið hefur ekki greitt leikmönnum laun á tilsettum tíma og Hermann segir að leikmenn og aðrir starfsmenn félagsins séu orðnir þreyttir á stöðu mála.

„Eigendurnir verða að koma hreint fram og útskýra nákvæmlega fyrir okkur hvað sé á seyði. Þetta er í fjórða skiptið sem þetta gerist og þetta virðist ekkert ætla að breytast. Leikmenn sem og aðrir starfsmenn eru að leggja mikið á sig fyrir félagið en við skiljum ekki hvað er að gerast hjá þeim sem stjórna félaginu.

Það er ótrúlegt að við séum ekki að fá borgað á réttum tíma og það án nokkurra skýringa. Leikmenn félagsins þurfa ef til vill ekki að örvænta þó svo að þeir fái laun sín ekki greidd en aðrir starfsmenn félagsins eru ef til vill ekki að fá jafn vel borgað og treysta á að fá greitt á réttum tíma og það er slæmt ef að ekki er staðið við það," segir Hermann í viðtali við Daily Express.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×