Enski boltinn

Coventry tapaði án Arons Einars

Elvar Geir Magnússon skrifar
Craig Bellamy skoraði fyrir Cardiff í dag.
Craig Bellamy skoraði fyrir Cardiff í dag.

Fimm leikir fóru fram í ensku 1. deildinni (B-deildinni) í dag en helming leikja dagsins var frestað vegna veðurs.

Leeds fór illa að ráði sínu gegn Leicester á útivelli. Eftir að hafa komist í 2-0 misstu þeir leikinn niður í jafntefli 2-2. Max Gradel og Robert Snodgrass skoruðu mörk Leeds. Paul Gallagher minnkaði muninn á 72. mínútu og fjórum mínútum síðar jafnaði svo Andy King metin fyrir Sven-Göran Eriksson og lærisveina hans.

QPR er með 44 stig, Cardiff 40 og Leeds í þriðja sætinu með 39 stig og hefur leikið leik meira en hin tvö. Cardiff vann 2-0 sigur á Coventry í dag en Seyi Olofinjana og Craig Bellamy skoruðu mörkin. Aron Einar Gunnarsson lék ekki með Coventry þar sem hann tók út leikbann. Coventry er nú í sjötta sæti, síðasta umspilssætinu, með 34 stig.

Reading vann Bristol City í Íslendingalausum leik og Jimmy Bullard skoraði dramatískt sigurmark fyrir Hull en hér að neðan má sjá öll úrslit dagsins.

Barnsley - Burnley 1-2

Cardiff - Coventry 2-0

Leicester - Leeds 2-2

Reading - Bristol C 4-1

Sheffield U - Hull 2-3

Scunthorpe - Preston FRESTAÐ

Crystal Palace - Norwich FRESTAÐ

Derby - Doncaster FRESTAÐ

Ipswich - Watford FRESTAÐ

Middlesbrough - Nott Forest FRESTAÐ

Í ensku C-deildinni áttust við Huddersfield og Hartlepool. Jóhannes Karl Guðjónsson var í byrjunarliði Huddersfield en Ármann Smári Björnsson byrjaði á varamannabekk Hartlepool en kom inn sem varamaður á 82. mínútu. Jói Kalli var tekinn af velli þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Leikurinn endaði með 1-0 útisigri Hartlepool sem er í tíunda sætinu en Huddersfield er í þriðja sæti, fjórum stigum á eftir Brighton sem situr í toppsætinu.

Þetta var eini leikurinn sem fram fór í C-deildinni í dag en öllum öðrum leikjum deildarinnar var frestað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×