Fótbolti

Þjálfari Svartfellinga: Við verðum engir "túristar" á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatko Kranjcar, þjálfari Svartfjallalands.
Zlatko Kranjcar, þjálfari Svartfjallalands. Mynd/Nordic Photos/Getty
Zlatko Kranjcar, þjálfari Svartfjallalands, hefur gert frábæra hluti með lið sitt í undankeppni EM í fótbolta en Svartfellingar eru nú á toppi síns riðils eftir 1-0 sigra í þremur fyrstu leikjum sínum. Næsti leikur Svartfjallalands er á móti Englendingum á Wembley á þriðjudaginn.

„Englendingar eru áfram sigurstranglegasta liðið í riðlinum en við erum ekki að fara til London til að versla eins og einhverjir túristar. Við ætlum að sanna okkur og reyna að fáa eitthvað út úr þessum leik," sagði Zlatko Kranjcar við fjölmiðla í heimalandinu.

„Við sýndum það í þessum leik á móti Sviss að við getum spilað góðan fótbolta á móti erfiðum mótherjum og það að sigrarnir á móti Búlgaríu og Wales voru engin heppni," sagði Kranjcar.

Króatíski þjálfarinn tók við liðinu í febrúar og hefur heldur betur náð athyglisverðum árangri með liðið sem vann aðeins einn af tíu leikjum í síðustu undankeppni.

„Leikmennirnir hafa tekið vel í mínar hugmyndir og hafa staðið sig svo vel að við teljum nú alveg raunhæft markmið að ná öðru sætinu í riðlinum og tryggja okkur sæti í umspilinu," sagði Kranjcar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×