Erlent

25000 fórust í Dresden

Óli Tynes skrifar
Rjúkandi valkestir voru um alla Dresden.
Rjúkandi valkestir voru um alla Dresden.

Eftir fimm ára rannsóknir hefur sérskipuð nefnd í Þýskalandi komist að þeirri niðurstöðu að um 25 þúsund manns hafi farist í loftárásum bandamanna á þýsku borgina Dresden í síðari heimsstyrjöldinni.

Um þetta hefur lengi verið deilt. Hægrisinnuð samtök í Þýskalandi hafa sagt að hálf milljón manna hafi beðið bana. Þau segja að þetta hafi verið stríðsglæpur.

Árásirnar stóðu yfir í þrjá daga, 13-15 febrúar árið 1945. Þær komu af stað slíkum eldbyl að borgin var ein rjúkandi rúst.

Gagnrýnendur og ekki bara af hægri vængnum í Þýskalandi, segja að stríðinu hafi þarna verið því sem næst lokið og engin hernaðarleg réttlæting á því að brenna borgina til kaldra kola.

Aðrir segja að Dresden hafi verið mikilvæg birgðastöð að baki þýsku víglínurnar þegar sovéski herinn sótti að borginni.

Dresden rannsóknarnefndin segist hafa notað skjöl úr skjalasafni borgarinnar, úr kirkjugörðum og öðrum opinberum gögnum.

Þetta hafi hún borið saman við ritaðar heimildir og frásagnir sjónarvotta til þess að komast að þessari niðurstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×