Fótbolti

Ísland bjargaði andlitinu í Ísrael

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson skoraði annað marka Íslands í leiknum í kvöld.
Kolbeinn Sigþórsson skoraði annað marka Íslands í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Ísland mátti þola tap, 3-2, fyrir Ísrael í vináttulandsleik í Tel Aviv í kvöld. Góð úrslit í ljósi þess að staðan var orðin 3-0 strax í fyrri hálfleik. Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk Íslands.

Omer Damari skoraði fyrstu tvö mörk Ísraela í leiknum, á fimmtu og 14. mínútu. Bæði komu eftir varnarmistök.

Fyrra markið kom eftir mistök hjá Indriða Sigurðssyni sem gaf boltann klaufalega frá sér. Í kjölfarið kom stungusending á Damari sem stakk sér á milli tveggja varnarmanni og skoraði í fjærhornið.

Það síðara kom eftir að hann hirti boltann af Hermanni Hreiðarssyni eftir misheppnaða tilraun við að hreinsa frá marki. Hermann reyndi að ná boltanum aftur af Damari en hann rann og Ísraelinn skoraði með skoti utan vítateigsins

Þriðja mark Ísraela skoraði Lior Rafaelov. Sóknarmaður Ísraela slapp einn inn fyrir vörn Íslands eftir stungusendingu og ætlaði að leika á Gunnleif Gunnleifsson, markvörð Íslands. Það tókst ekki en hann náði að renna boltanum út í teiginn þar sem að Rafaelov var einn á auðum sjó og skoraði auðveldlega.

Staðan í leiknum breyttist ekki fyrr en á 79. mínútu þegar að Alfreð Finnbogason skoraði með fínu skoti utan vítateigs eftir hornspyrnu.

Alfreð lagði svo upp síðara mark Íslands aðeins sex mínútum síðar er hann gaf boltann inn fyrir vörn heimamanna. Þar var Steinþór Freyr Þorsteinsson mættur og gaf á Kolbein Sigþórsson sem renndi boltanum í markið.

En nær komust Íslendingar ekki og fögnuðu heimamenn sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×