Lokeren gekk á laugardagskvöldið frá samningum við Alfreð Finnbogason sem gildir í tvö og hálft ár með möguleika á einu tímabili til viðbótar. Þetta var staðfest á heimasíðu félagsins.
Alfreð er 21 árs gamall og skoraði á dögunum sitt fyrsta A-landsliðsmark er Ísland tapaði fyrir Ísrael, 3-2.
Hann var valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla og var þar að auki einn þriggja markahæstu leikmanna mótsins. Hann var kjörinn efnilegastur í fyrra og er fyrsti karlkyns leikmaðurinn í sögunni sem afrekar að fylgja því eftir með því að verða kjörinn bestur ári síðar.
Alfreð var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks en heldur nú til Lokeren í Belgíu þar sem margir Íslendingar hafa áður verið, til að mynda Rúnar Kristinsson, Arnar Grétarsson og Arnar Þór Viðarsson.