Fótbolti

Greta Mjöll bæði með flest mörk og flestar stoðsendingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Greta Mjöll Samúelsdóttir.
Greta Mjöll Samúelsdóttir.

Blikinn Greta Mjöll Samúelsdóttir hefur heldur betur slegið í gegn með Northeastern háskólanum í vetur en hún var á skotskónum í gær þegar Northeastern Huskies gerðu 1-1 jafntefli við Drexel Dragons í bandarísku háskóladeildinni í knattspyrnu.

Greta Mjöll skoraði markið sitt snemma í síðari hálfleik, lék þá á tvo varnarmenn Dragons sem og markvörðinn og skoraði. Hún var hins vegar óheppin með langskot sín, skaut bæði í stöng og þverslá, og markvörður Dragons varði glæsilega skot hennar út við stöng í lok leiksins.

Greta Mjöll og Sandra Sif Magnúsdóttir léku báðar allan leikinn með Huskies og fengu lof fyrir frammistöðu sína. Greta Mjöll er nú markahæst leikmanna Huskies ásamt Veronicu Napoli, með 6 mörk í 11 leikjum, og hefur gefið flestar stoðsendingar. Huskies hafa nú sigrað í 7 leikjum í deildinni, gert eitt jafntefli og tapað þremur.

Dagskráin hefur verið stíf hjá Gretu Mjöll og Söndru Sif með Huskies undanfarið. Liðið hefur leikið fjóra leiki á síðustu tíu dögum, unnið tvo, gert eitt jafntefli og tapað einum.

Greta Mjöll lagði um síðustu helgi upp sigurmark Northeastern gegn Virginia Commonwealth (1-0) og mark liðsins í ósigri gegn liði James Madison háskóla (1-3), en Napoli skoraði bæði mörkin. Sandra Sif lagði upp annað mark Northeastern í sigri á Delaware síðastliðinn fimmtudag (3-2), en í þeim leik áttu þær stöllur báðar skot í þverslá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×