Innlent

Landsmót hestamanna líklega blásið af

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Landsmót hestamanna er fyrirhugað í Skagafirði 27. júní til 4. júlí. Nú stefnir í að mótinu verði aflýst vegna hestapestarinnar svokölluðu.
Landsmót hestamanna er fyrirhugað í Skagafirði 27. júní til 4. júlí. Nú stefnir í að mótinu verði aflýst vegna hestapestarinnar svokölluðu.
Landsmót hestamanna sem fyrirhugað er í Skagafirði verður líklega blásið af. Þetta segir Sigurður Ævarsson, mótsstjóri Landsmóts hestamanna. Ef mótinu verður aflýst tapast milljarðar króna í formi gjaldeyristekna.

Landsmót hestamanna er fyrirhugað í Skagafirði 27. júní til 4. júlí en um er að ræða eina stærstu fjöldasamkomu sem haldin er á Íslandi og var áætlað að 10-12 þúsund mótsgestir myndu mæta í ár. Nú stefnir í að mótinu verði aflýst vegna hestapestarinnar svokölluðu, en um er að ræða nokkuð hvimleiða veirusýkingu í öndunarfærum sem lagst hefur á stóran hluta íslenska hestastofnsins.

Pestin hefur að mestu lamað daglega starfsemi í kringum hestamennskuna, en hún gerir það að verkum að ekki er hægt að þjálfa hross sem á þessum tíma árs ættu að vera í sínu allra besta ástandi. Tekur það hrossin alla jafna um sex til átta vikur að hrista pestina alveg af sér en dæmi eru um að hross sem séu í mjög smituðu umhverfi smitist aftur af veirusýkingunni eftir að hafa náð sér að fullu.

Sigurður Ævarsson, mótsstjóri Landsmóts hestmanna, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis núna laust fyrir hádegið að hann teldi að það væru meiri líkur en minni að Landsmótinu yrði aflýst. 2500 útlendingar höfðu boðað komu sína á mótið. Sigurður segir að þeir fjármunir sem tapast ef mótið fellur niður hlaupi á milljörðum króna í formi gjaldeyristekna.

Fag- og hagsmunaðilar hestamennskunnar funda klukkan eitt í dag með fulltrúa landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins en þá verður tekin ákvörðun um hvort aflýsa eigi mótinu. Ef það verður niðurstaðan yrði það reiðarslag fyrir Skagfirðinga enda skapar mótið gríðarlega miklar tekjur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×