Fótbolti

Gyan: Ég mun jafna mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gyan var óhuggandi eftir leikinn í gær en jafnaði sig greinilega að lokum.
Gyan var óhuggandi eftir leikinn í gær en jafnaði sig greinilega að lokum. Nordic Photos / AFP
Asamoah Gyan segir að hann muni jafna sig á dramatíkinni sem átti sér stað undir lok leiks Gana og Úrúgvæ í fjórðungsúrslitum HM í Suður-Afríku í gær.

Undir blálok framlengingar leiksins í gær var víti dæmt á lið Úrúgvæ. Gyan hefði getað tryggt Gana sæti í undanúrslitum keppninnar en hann skaut í slána úr vítinu.

Því næst var leikurinn flautaður af og réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni þar sem Úrúgvæ hafði betur. Gyan skoraði hins vegar úr sinni spyrnu í þeirri keppni.

„Ég mun jafna mig. Ég bý yfir innri styrk," sagði Gyan við fjölmiðla eftir leik. „Ég hafði hugrekki til að taka vítið en það er eðlilegt enda er ég vítaskytta liðsins."

„En nú er Suarez hetja í sínu heimalandi. Boltinn var á leiðinni í markið. Hann stoppaði hann og ég klikkaði á vítinu. Svona er þetta bara," sagði Gyan en Luis Suarez varði boltann á marklínu með höndunum sem gerði það að verkum að vítið var dæmt. Suarez fékk að líta rauða spjaldið fyrir.

Til að bæta gráu á svart hefði Gyan jafnað markamet Roger Milla hefði hann skorað úr vítinu fræga. Milla er markahæsti leikmaður Afríku í úrslitakeppni HM frá upphafi.

Markvörður Gana, Richard Kingson, sagði leikmenn liðsins hafa reynt að hugga Gyan eftir leikinn. „Þetta er bara leikur og við verðum að reyna að gleyma þessu. Mér fannst þetta ósanngjarnt. Dómarinn hefði átt að dæma mark en hann dæmdi víti. En þetta er hluti af leiknum, maður verður að taka mistökunum og gera betur næst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×