Enski boltinn

Lampard loksins aftur á ferðina

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Lampard.
Frank Lampard. Nordic Photos / AFP

Allt útlit er fyrir að Frank Lampard muni vera í byrjunarliði Chelsea í fyrsta sinn síðan í ágúst er liðið mætir Manchester United á sunnudag.

Þetta eru frábærar fréttir fyrir Chelsea sem hefur ekki unnið í fimm deildarleikjum í röð og er dottið niður í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar. United er hins vegar enn ósigrað og á toppnum.

Lampard hefur verið að glíma við kviðslit en náði að spila í sextíu mínútur í æfingaleik í gær. Hann kom svo við sögu í stuttan tíma þegar að Chelsea mætti Tottenham um helgina.

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, hefur gefið það út að Lampard muni byrja um helgina nema að eitthvað óvænt komi upp á.

Chelsea hefur ekki þurft að bíða svo lengi eftir sigri í ensku úrvalsdeildinni undanfarinn áratug en margir lykilmenn hafa verið meiddir, eins og til að mynda Lampard, John Terry, Didier Drogba, Michael Essien og Alex.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×