Fótbolti

Torres og Messi rífast um bestu bresku hljómsveitina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Tónlist er eitthvað sem knattspyrnumenn nota til þess að koma sér í rétta gírinn fyrir leiki. Uppgötvun Lionel Messi á Oasis hefur vakið mikla athygli en nú hefur Fernando Torres ákveðið að taka þátt í rifrildinu um besta bresku hljómsveitina.

Torres er mikill aðdáandi hljómsveitarinnar Kasabian og segir þá miklu betri en Oasis. Hann segir þá vera bestu bresku hljómsveitina síðan Bítlarnir voru uppi.

"Ég las allt þetta um Messi og Oasis. Að hann væri að hlusta á þá fyrir leiki. Ég sendi honum þá góðlátlegt sms þar sem ég sagði að Oasis væri fínt band en Kasabian væri það besta sem Bretar hefðu komið með síðan Bítlarnir voru upp á sitt besta," sagði Torres.

"Messi svaraði: "Algjört kjaftæði." Ég sagði að við myndum bara sjá hvort Kasabian kæmi Spáni ekki lengra en Oasis kæmi Argentínu. Ég hef þegar unnið það veðmál."

Þó svo Spánn sé komið lengra á mótinu þá spilaði Messi talsvert betur. Torres á samt enn möguleika að hysja upp um sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×