Enski boltinn

Altidore tileinkaði Haítí fyrsta mark sitt á Englandi

Ómar Þorgeirsson skrifar
Jozy Altidore í leik með bandríska landsliðinu.
Jozy Altidore í leik með bandríska landsliðinu. Nordic photos/AFP

Bandaríski landsliðsmaðurinn Jozy Altidore opnaði markareikning sinn á Englandi í gær þegar hann skoraði annað tveggja marka Hull í 2-1 sigri gegn Manchester City en Altidore er á láni hjá Hull frá Villarreal á Spáni.

Altidore tileinkaði eyríkinu Haítí mark sitt vegna hræðilegra jarðskjálfta sem áttu sér stað þar í janúar en báðir foreldrar Altidore voru fæddir á Haítí og mikið af frændfólki hans fór illa út úr óförunum í janúar.

„Þetta mark var fyrir Haítí og vonandi að ég hafi náð að gleðja einhverja fjölskyldumeðlimi mín þar með því að skora," sagði Altidore en hann er nýkominn aftur til Englands frá Haítí þar sem hann vann að hjálparstarfi.

Altidore hefur jafnframt verið ötull talsmaður þess að fólk gefi í safnanir til handa Haítí og leikur alltaf með svitaband með fána Haítí á ásamt fána Bandaríkjanna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×