Enski boltinn

Óvænt á Anfield - Liverpool enn í fallsæti eftir tap gegn Blackpool

Elvar Geir Magnússon skrifar
Roy Hodgson þurfti að horfa á sína menn tapa fyrir Blackpool í dag.
Roy Hodgson þurfti að horfa á sína menn tapa fyrir Blackpool í dag.

Hrakfarir Liverpool halda áfram en liðið tapaði í dag 1-2 fyrir Blackpool á heimavelli sínum. Liverpool er í fallsæti, situr í 18. sæti með aðeins sex stig eftir sjö umferðir.

Leikurinn byrjaði alls ekki vel fyrir Liverpool því stjörnuframherjinn Fernando Torres fór meiddur af velli snemma.

Charlie Adam tók síðan forystuna fyrir Blackpool með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Glen Johnson hafði brotið kjánalega af sér. Pepe Reina var nálægt því að verja spyrnuna en inn fór boltinn. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks bætti Luke Varney svo við öðru marki Blackpool eftir góða sókn gestana.

Grikkinn Sotirios Kyrgiakos minnkaði muninn fyrir Liverpool snemma í seinni hálfleik í 1-2 en lengra komust heimamenn ekki og Blackpool fer því með öll stigin þrjú heim. Liverpool var nálægt því að jafna í uppbótartíma en markvörður Blackpool Matt Gilks varði frábærlega.

Blackpool er nú í níunda sætinu, ofar en bjartsýnustu menn þorðu að vona fyrir tímabilið.

Þess má geta að nokkrir leikmenn Blackpool mættu út á völl fyrir upphitun með myndavélar og létu m.a. taka mynd af sér við Kop-stúkuna enda margir þeirra sem hafa vafalítið ekki búist við því fyrir einhverjum mánuðum að fá að spila á Anfield einn daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×