Fótbolti

Kristjáni sagt upp störfum í Færeyjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson. Mynd/Anton

Kristján Guðmundsson er hættur sem þjálfari færeyska liðsins HB frá Þórshöfn. Honum var sagt upp störfum í dag.

„Formaður og einn stjórnarmanna félagsins komu heim til mín í dag og tilkynntu mér þetta," sagði Kristján í samtali við Vísi í dag. „Þeir telja að úrslitin hafi ekki verið nógu góð."

HB tapaði í gær fyrir FC Suðuroy, 4-1, sem virðist hafa gert útslagið. „Úrslitin hafa verið upp og niður og í gær áttum við að klára leikinn eftir fyrsta hálftímann. Við komumst yfir eftir fimm mínútur og fengum nokkur góð færi til að skora eftir það."

HB er þó í öðru sæti deildarinnar. „Liðið verður meistari ef ég held áfram með liðið. En þeir telja að það þurfi annan þjálfara til að landa titlinum," sagði Kristján sem segir að HB vanti sárlega framherja.

„Við höfum skorað tíu mörkum færra en liðin í kringum okkur en erum samt með svipaðan stigafjölda. Það hefur því ekki verið stórt vandamál. Engu að síður hefði ég kannski átt að vera grimmari og biðja um að fá framherja fyrir mót eða þegar félagaskiptaglugginn var opinn."

HB náði góðum árangri í Evrópukeppninni og vann til að mynda 1-0 sigur á Red Bull Salzburg frá Austurríki á heimavelli. „Forystumenn knattspyrnumála í Færeyjum voru himinlifandi yfir sigrinum því fyrir hann fengust 800 UEFA-stig. Ég er því ekki alveg að kaupa þessar útskýringar að gengið hafi ekki verið nógu gott."

Kristján segir að dvölin í Færeyjum hafi reynst lærdómsrík. „Þetta er talsvert öðruvísi hér en ég hef kynnst annars staðar. Ég læt það liggja á milli hluta hvort það sé til hins betra eða verra. En aðstæður eru mun lakari en heima og hugsunarhátturinn er einfaldlega annar."

„Það er einnig sérstakt að í tíu liða deild eru þrjú lið frá Þórshöfn og öll hafa þau rekið þjálfarann sinn á tímabilinu."

Kristján á von á því að snúa aftur heim til Íslands. „Nú þarf ég að pakka niður og svo fer ég til fjölskyldunnar sem er heim á Íslandi."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×