Fótbolti

Sjö leikmenn fjarverandi hjá Gana?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Gana fagna einu marka sinna á HM.
Leikmenn Gana fagna einu marka sinna á HM. Nordic Photos / Getty Images

Svo gæti farið að sjö leikmenn úr leikmannahópi Gana verði fjarverandi þegar að liðið mætir Úrúgvæ í fjórðungsúrslitum HM í Suður-Afríku í kvöld.

Þeir Jonathan Mensah, leikmaður Udinese á Ítalíu, og Andre Ayew hjá Marseille munu báðir taka út leikbann í kvöld og spila því ekki.

Þá eru fimm leikmenn sagðir afar tæpir vegna meiðsla og mun það ekki ráðast fyrr en skömmu fyrir leik hvort þeir eigi möguleika á að taka þátt í leiknum.

Þetta eru þeir Kevin-Prince Boateng, John Mensah, Hans Sarpei og Samuel Inkoom auk Asamoah Gyan sem hefur skorað öll mörk Gana nema eitt á mótinu til þessa. Þó er talið líklegt að Gyan verði orðinn leikfær fyrir kvöldið.

Þetta eykur líkurnar á því að Sulley Muntari, leikmaður Evrópumeistara Inter á Ítalíu, fái tækifæri í kvöld en þau hafa verið af skornum skammti eftir að honum sinnaðist við Milovan Rajevac landsliðsþjálfara.

„Ég er búinn að tala við þjálfarann," sagði Muntari. „Ég held að ég hafi hagað mér örlítið kjánalega. En það er allt í góðu núna og ég mun gefa allt mitt fyrir liðið eins og ég hef alltaf gert."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×