Enski boltinn

Arsenal á toppinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsenal er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar, um stundarsakir að minnsta kosti, eftir 4-2 útisigur á Aston Villa í dag.

Arsenal var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi sanngjarnt eftir hann, 2-0, með mörkum frá Andrei Arshavin og Samir Nasri.

Ciaran Clark náði að gefa heimamönnum von með marki snemma í síðari hálfleik með góðu skoti en Marouanae Chamakh kom Arsenal aftur tveimur mörkum yfir stuttu síðar.

Hann fékk sendingu inn fyrir vörn Aston Villa og varð á undan Brad Friedel í boltann sem kom hlaupandi út úr markinu.

Clark náði þó að skora öðru sinni, nú með skalla, fyrir Aston Villa en allt kom fyrir ekki. Táningurinn Jack Wilshere skoraði í uppbótartíma sitt fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni og gulltryggði Arsenal sigurinn.



Robert Pires lék með Aston Villa gegn sínu gamla félagi í dag.Nordic Photos / Getty Images
Arsenal mistókst að komast á topp ensku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi er þeir misstu niður 2-0 forystu gegn Tottenham og töpuðu leiknum, 3-2. En nú tókst það og er Arsenal með eins stigs forystu á Chelsea og Manchester United sem eiga bæði leik til góða.

Eins og alltaf birtist samantekt af leiknum á Sjónvarpsvef Vísis innan skamms.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×