Fótbolti

FIFA ætlar að gefa markverði Tógó 2,8 milljónir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sepp Blatter, forseti FIFA.
Sepp Blatter, forseti FIFA. MYnd/AFP
Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur lofað að gefa markverði frá Tógó 25 þúsund dollara peningagjöf frá sambandinu. Umræddur markvörður slasaðist í hríðskotaárás á rútu landsliðs Tógó fyrir Afríkukeppnina í byrjun ársins. Þetta gera um 2,8 milljónir íslenskar króna.

Markvörðurinn heitir Kodjovi Obilale og sagðist hann hafa fengið bréf frá forseta FIFA um helgina þar sem Blatter skrifaði að peningarnir kæmu úr sjóði sambandsins sem er ætlað að fara til mannúðarmála.

Obilale skrifaði Blatter í ágúst og bað um hjálp en þó svo að Blatter segir FIFA ekki bera neina ábyrgð á þessari keppni þá var hann til búinn að hjálpa markverðinum við að koma undir sig fótunum á ný.

Kodjovi Obilale fékk tvö skot í bakið í árásinni og hann varð fyrir mænuskaða. Í dag getur hann ekki hreyft hægri fótinn fyrir neðan hné og finnur ekki fyrir tánum. Hann er 25 ára gamall en býst ekki við því að geta spilað aftur fótbolta. Þrír menn létust í árásinni, aðstoðarþjálfari Tógó, blaðafulltrúi liðsins og ökumaður rútunnar sem var frá Angóla.

Íþróttamálaráðherra Tógó stóð við það að láta Kodjovi Obilale hafa 70 þúsund dollara sem fóru í að borga himinháa sjúkrahúsreikninga hans en peningurinn dugði þó aðeins fyrir þremur mánuðum að sjö. Obilale ætlar að senda ríkisstjórn Tógo reikningana fyrir hina fjóra mánuðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×