Erlent

Tígrisdýraveiðar á Kanaríeyjum

Óli Tynes skrifar
Nokkur skelfing greip um sig þegar þrjú tígrisdýr sluppu úr dýragarði á Kanaríeyjum í dag. Starfsmaður dýragarðsins var að þrífa fyrir utan búr sjö tígrisdýra þegar hann ýtti í misgripum á hnappa sem opnaði búrið.

Fjögur tígrisdýranna héldu kyrru fyrir en þrjú stukku út og hurfu út úr dýragarðinum. Í dýragarðinum var hvorki að finna menn með kunnáttu né heldur tæki eða tól til þess að fanga dýrin á nýjan leik.

Skyttur lögreglunnar voru því kallaðar til. Þær leituðu dýrin uppi og skutu þau til bana. Sem betur fór hafði engin mannvera þvælst í veg fyrir þau þann tíma sem þau gengu laus.

Engir gestir voru í garðinum þegar þetta gerðist og enginn í grennd við tígrisbúrið nema sóparinn klaufalegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×