Enski boltinn

Bale lærir af Cristiano Ronaldo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid.
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Gareth Bale, leikmaður Tottenham, segir að hann hafi litið til leikmanna eins og Cristiano Ronaldo þegar hann vill bæta eigin frammistöðu.

Bale hefur verið einn heitasti leikmaðurinn í Meistaradeild Evrópu eftir að hann skoraði þrennu í 4-3 tapi Tottenham fyrir Inter fyrir tveimur vikum en þessi lið mætast að nýju í kvöld.

Eins og búast má við eru andstæðingar Tottenham farnir að passa betur upp á Bale. „Ég held að ég þurfi að breyta mínum leik og aðlagast eftir því sem tíminn líður," sagði Bale við enska fjölmiðla.

„Nú eru liðin farin að hugsa meira um það hvernig það eigi að stoppa mig og ég þarf því að finna upp á nýjum leiðum til að komast fram hjá þeim."

„Allir bestu leikmenn heims, menn eins og Ronaldo, þurfa að venjast því að andstæðingurinn tvöfaldi á þá. Ég tel að sem leikmaður þarf maður sífellt að þróa og bæta sinn leik. Þannig verður maður alhliða leikmaður."

Bale er 21 árs gamall en fyrstu árin hjá Tottenham voru ekki auðveld. Tottenham vann ekki leik í fyrstu 24 skiptin sem Bale var í byrjunarliðinu. „Ég hef í sannleika sagt alltaf haft trú á minni getu. Aðalatriðið fyrir mig var að fá að spila reglulega. Þegar ég fékk það tækifæri í janúar hafði góða trú á sjálfum mér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×