Enski boltinn

Neville ekki lengur fyrirliði United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gary Neville, til vinstri, á æfingu með Manchester United í dag.
Gary Neville, til vinstri, á æfingu með Manchester United í dag. Nordic Photos / Getty Images

Alex Ferguson hefur ákveðið að Gary Neville verði ekki áfram fyrirliði Manchester United en því hlutverki hefur hann gegnt í fimm ár.

Neville tók við fyrirliðabandinu af Roy Keane þegar hann yfirgaf félagið árið 2005. Hann hefur hins vegar spilað lítið vegna meiðsla undanfarin misseri og telst ekki lengur fastamaður í byrjunarliði United.

„Með fullri virðingu fyrir Gary og þeim tíma sem hann hefur gefið Manchester United þá vitum við báðir að hann spilar ekki í hverri viku. Og ég er að leita af einhverjum sem spilar reglulega," sagði Alex Ferguson, stjóri United.

Sjálfur sagði Neville að það hefði ekki verið aðalmálið fyrir sig að vera fyrirliði. „Þetta hefur verið sannur heiður en ég var ekki fyrirliði lengst af á mínum ferli. Þetta er því ekkert nýtt," sagði Neville.

Talið er líklegt að annað hvort Rio Ferdinand eða Nemanja Vidic verði nýr fyriliði United. Vidic var fyrirliði í leiknum gegn Everton um helgina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×