Enski boltinn

Beckham: Manchester United var mín fyrsta ást

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Beckham.
David Beckham. Nordic photos/AFP

Stórstjarnan David Beckham býr sig nú undir að snúa aftur á Old Trafford, heimavöll uppeldisfélagssins Manchester United, þegar að núverandi félag hans AC Milan mætir enska félaginu í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Fyrri leikur liðanna fer fram á San Siro-leikvanginum í Mílanó 16. febrúar en seinni leikurinn á Old Trafford-leikvanginum 10. mars og Beckham kveðst ekki geta beðið eftir því að snúa aftur til Manchester.

„Þegar ég var hjá Real Madrid fannst mér alltaf hræðileg tilhugsun að mæta United og snúa aftur á Old Trafford því ég saknaði þess svo mikið að vera hjá félaginu og sakna þess raunar enn.

Þó svo að ég sé ekki þar núna þá var Manchester United fyrsta ástin mín og ég mun alltaf vera stuðningsmaður félagsins.

Núna hins vegar þegar AC Milan var dregið gegn United þá fann ég bara fyrir spennu og nú get ég ekki beðið eftir því að snúa þangað aftur.

Þetta verður tilfinningaþrungið en frábært kvöld og þó svo að ég hlakki ekkert til að mæta einhverjum sérstökum leikmanni United þá er ég búinn að heyra í Gary Neville og hann er einnig sannfærður um að þetta verði frábærir leikir á milli United og AC Milan," segir Beckham í viðtali við Inside United blaðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×