Upp­gjörið: Stjarnan - Víkingur 2-3 | Valdimar Þór fór lang­leiðina með að tryggja titilinn

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Víkingar fagna.
Víkingar fagna. Vísir/Diego

Víkingur er með níu fingur á Íslandsmeistaratitlinum eftir dramatískan 3-2 útisigur í Garðabænum. Víkingar eru með sjö stiga forystu á toppi deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir. 

Leikurinn fór heldur betur af stað með látum en strax á 2. mínútu fengu Stjörnumenn hornspyrnu sem Samúel Kári Friðjónsson tók og teiknaði hann fullkominn bolta á höfuðið á Örvari Eggertssyni sem stýrði boltanum örugglega í netið og kom Stjörnunni yfir. Sannkölluð draumabyrjun fyrir heimamenn.

Stjarnan -Víkingur Besta Deild Karla Paweł/Vísir

Víkingar létu þó ekki deigan síga og náðu inn jöfnunarmarki örfáum mínútum seinna en á 9. mínútu fann Valdimar Þór Ingimundarson félaga sinn grunsamlega einan inni á teig þegar hann kom boltanum á Helga Guðjónsson sem kláraði færið vel og jafnaði leikinn fyrir gestina.

Leikurinn fór fram og til baka þar sem bæði lið voru að komast í fínustu stöður. Þorri Mar Þórisson þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla eftir korters leik og kom Damil Serena Dankerlui inn fyrir hann.

Mikil barátta var á vellinum og þá átti Árni Snær Ólafsson nokkrum sinnum flottar vörslur eftir gott spil Víkinga.

Það var svo í uppbótartíma fyrri hálfleiks þar sem Víkingar sækja upp hægri vænginn og Daníel Hafsteinsson á frábæran bolta fyrir markið sem Nikolaj Hansen stangaði í netið og kom gestunum yfir 1-2 og þannig var staðan í hálfleik.

Nikolaj Hansen að skora í kvöldPaweł/Vísir

Síðari hálfleikur var ekki jafn opin og sá fyrri. Bæði lið komust þó í ágætis stöður á köflum en náðu þó ekki að ógna af neinu viti eða skapa sér opin færi.

Eftir því sem leið á leikinn fór Stjarnan að henda fleiri mönnum fram völlinn í von um að sækja mark sem opnaði á skyndisóknir frá gestunum.

Það var á 90. mínútu þar sem Stjörnumenn voru í stórsókn. Sveinn Gísli Þorkelsson bjargaði á línu en Víkingar náðu ekki að koma boltanum frá og Guðmundur Baldvin Nökkvason náði að koma boltanum fyrir markið blint þar sem Örvar Eggertsson náði að setja höfuðið í boltann og inn fór hann.

Stjarnan -Víkingur Besta Deild KarlaPaweł/Vísir

Sex mínútum var bætt við og færðist smá fjör í leikinn. Þegar komið var í síðustu mínútu uppbótartíma gerðu Stjörnumenn sig seka um hrikaleg mistök í öftustu línu og Valdimar Þór Ingimundarson innsiglaði sigur Víkinga með dramatísku sigurmarki alveg í blálokin og tryggði Víkingum sigurinn 2-3.

Atvik leiksins

Samúel Kári Friðjónsson verður fyrir því óláni að renna til og missa boltann á stórhættulegum stað alveg undir restina og Valdimar Þór Ingimundarson refsaði með því að setja sigurmarkið.

Stjörnur og skúrkar

Valdimar Þór Ingimundarson var að mínu mati öflugur í liði Víkinga og skoraði sigurmark leiksins auk þess að leggja upp. Vinnslan í Gylfa Þór Sigurðssyni var þá einnig mjög góð í kvöld.

Hjá Stjörnunni var Örvar Eggertsson virkilega öflugur og setti tvö mörk.

Dómararnir

Ívar Orri Kristjánsson sá um að dæma þennan leik og honum til aðstoðar voru Birkir Sigurðarson og Ragnar Þór Bender.

Allt í lagi ekki gott myndu einhverjir segja. Full flautu glaður á köflum en heilt yfir var þetta bara allt í lagi.

Stemingin og umgjörð

Ég verð bara að hrósa stuðningsmönnum Víkinga fyrir frábæra stemningu alveg frá því maður mætti á völlinn og það var partybus á bílaplaninu þar sem Víkingar voru að keyra upp stemningu.

Silfurskeiðin fær líka ‘shout’ en báðar stuðningsmannasveitir sungu og trölluðu allan leikinn. Þetta er svo miklu skemmtilegra þegar það er metnaður í stuðningnum.

Umgjörðin í Garðabæ er svo alltaf upp á 10,5! Gott val milli kjötsúpu og Börger í sjoppunni.

Viðtöl

Valdimar Þór Ingimundarson í baráttunni í kvöld.Paweł/Vísir

„Við fórum aftur upp á tærnar og náðum í sigurmarkið“

Valdimar Þór Ingimundarson var hetja Víkinga í kvöld en hann skoraði sigurmarkið alveg í blálokin.

„Ég pressa hann eitthvað þarna og ég held að hann sé bara að fara bomba honum fram og hægi smá á mér en svo fer hann 'fake shot' þarna og ég bara pota boltanum og hef nægan tíma, kannski aðeins of mikin tíma en hann endaði í netinu sem betur fer“ sagði Valdimar Þór Ingimundarson í samtali við Gunnlaug Jónsson eftir leik í kvöld aðspurður um að lýsa markinu. 

Stjarnan hafði jafnað leikinn stuttu áður en fram að því virtist þetta vera sigla þægilega í höfn fyrir Víkinga.

„Við vorum 2-1 yfir og erum með frábæra leikmenn í lágblokk. Mér leið alveg vel en svo kemur þetta mark þarna og við fórum aftur upp á tærnar og náðum í sigurmarkið“

Staðan er virkilega góð fyrir Víkinga eftir sigurinn í kvöld.

„Hún er góð en þetta er samt ekki búið þannig við verðum að klára þetta“

Jökull I. ElísabetarsonPaweł/Vísir

„Það er ekkert sálfræðistríð að halda því fram“

„Ég átti frekar von á því að við myndum setja sigurmark en þeir“ sagði Jökull I. Elísabetarson svekktur eftir leik í kvöld.

„Við vorum auðvitað að kasta öllu fram og ætluðum að sækja þetta. Þeir eru gott lið og spiluðu bara vel í dag eins og við. Þetta var bara góður leikur held ég heilt yfir“

Stjarnan komst yfir snemma í leiknum og var leikurinn mikil skák.

„Já að einhverju leyti kannski en bæði lið eru stertk. Við fáum annað gott færi eða svona ágætis færi sem við setjum í hliðarnetið. Það var góð sókn en svo fá þeir tvær góðar sóknir sem að þeir klára vel. Eitt af jörðinni og eitt úr loftinu þar sem Niko er bara sterkur. Mér fannst þetta bara góður leikur heilt yfir“

Stjörnumenn jafna leikinn á 90. mínútu en fengu svo svekkjandi sigurmark á sig alveg í blálokin. 

„Já svona getur gerst. Þetta hefði geta gerst hinumeginn líka. Það er bara eins og það er og ekkert við því að segja“

„Við vorkennum okkur aðeins í kvöld og svo mætum við á morgun og höldum áfram bara. Það breytist ekki“

Jökull viðurkenndi að titillinn væri svo farinn frá Stjörnumönnum eftir úrslit kvöldsins.

„Já hann er farinn. Það er ekkert sálfræðistríð að halda því fram. Það er bara vel gert hjá þeim og ég óska þeim bara til hamingju, sjö stig er bara of mikið og vel gert hjá þeim. Búnir að eiga flott sumar og vel að því komnir“ sagði Jökull I. Elísabetarson að lokum.


Tengdar fréttir

Sölvi Geir eftir dramatískan sigur í Garða­bæ: „Það er alltaf trú“

Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings sem situr á toppi Bestu deildar karla í fótbolta, talaði í fyrirsögnum eftir að Valdimar Þór Ingimundarson tryggði 3-2 sigur í Garðabæ. Sigur sem fór langleiðina með að tryggja það að Íslandsmeistaratitilinn fari í Víkina þegar mótinu lýkur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira