Innlent

Ekkert sjúkraflug í Vestmannaeyjum vegna leyfisleysis

Kalla þarf á þyrlu Landhelgisgæslunnar ef það á að flytja alvarlega veika einstaklinga til Reykjavíkur.
Kalla þarf á þyrlu Landhelgisgæslunnar ef það á að flytja alvarlega veika einstaklinga til Reykjavíkur.

Flugvélar Flugfélags Vestmannaeyja sem sinna sjúkraflugi milli lands og eyja hafa ekki haft leyfi til þess að fljúga frá því á föstudag samkvæmt fréttavefnum suður.net.

Þar er haft eftir framkvæmdastjóra Flugfélags Vestmannaeyja, Valgeir Arnórssyni, að Flugmálastjórn sé að skoða umbeðin gögn og vonar að hægt verði að byrja að fljúga aftur á morgun.

Vísir greindi frá því í gær að kalla þurfti þyrlu Landhelgisgæslunnar út til þess að sækja alvarlega veikan mann aðfaranótt laugardags. Þyrlan þurfti að sækja manninn þar sem báðar sjúkraflugvélarnar í Vestmannaeyjum máttu ekki fljúga.

Valgeir sagði í samtali við Suður.net að félagið hafi á fimmtudag sent inn gögn sem Flugmálastjórn óskaði eftir. Þar sem ekki hafi tekist að ljúka málinu á föstudag hafi félagið ekki heimild til að fljúga. Valgeir vonar að málið verði skoðað áfram hjá Flugmálastjórn á morgun svo að lausn fáist.

Vísir ræddi við Elliða Vignisson, bæjarstjóra Vestmannaeyja í gærkvöldi en þar sagði hann að það væri algjörlega óviðunandi að það væri ekkert sjúkraflug í Vestmannaeyjum. Bærinn kemur ekki að samningi flugfélagsins um sjúkraflugið.

„Við leggjum ríka áherslu á að það sé alltaf sjúkraflugvélar. Bæði er atvinnulífið þannig uppbyggt, sjómennska er hættulegt starf, og svo er mikið af fólki hér á eyjunni í stuttan tíma fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar," segir Elliði sem telur það óviðunandi að svona lagað gerist.

Hér er hægt að lesa greinina á vef suður.net.


Tengdar fréttir

Engar sjúkraflugvélar í Vestmannaeyjum óviðunandi ástand

„Þetta er algjörlega óviðunandi ástand,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, en Landhelgisgæslan þurfti að senda þyrlu á eftir veikum manni í eyjum í nótt. Ástæðan var sú að báðar sjúkraflutningavélarnar sem eru staddar í Vestmannaeyjum eru óstarfhæfar yfir helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×