Innlent

Engar sjúkraflugvélar í Vestmannaeyjum óviðunandi ástand

Elliði Vignisson er ósáttur við að báðar sjúkraflugvélarnar í eyjum séu bilaðar.
Elliði Vignisson er ósáttur við að báðar sjúkraflugvélarnar í eyjum séu bilaðar.

„Þetta er algjörlega óviðunandi ástand," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, en Landhelgisgæslan þurfti að senda þyrlu á eftir veikum manni í eyjum í nótt. Ástæðan var sú að báðar sjúkraflutningavélarnar sem eru staddar í Vestmannaeyjum eru óstarfhæfar yfir helgina.

„Við leggjum ríka áherslu á að það sé alltaf sjúkraflugvélar. Bæði er atvinnulífið þannig uppbyggt, sjómennska er hættulegt starf, og svo er mikið af fólki hér á eyjunni í stuttan tíma fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar," segir Elliði sem telur það óviðunandi að svona lagað gerist.

Sjúkraflugvélarnar eru á forræði Flugfélags Vestmannaeyja sem gerði samning við heilbrigðisráðuneytið um sjúkraflutningar.

„Ég vona að þetta sé bara millibilsástand," segir Elliði.

Maðurinn sem um ræðir var færður undir læknishendur snemma í morgun en Landhelgisgæslan fékk fyrst útkallið um klukkan hálf fjögur í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×