Fótbolti

Peter Crouch: Ég er alltaf síðasti kosturinn hjá Capello

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Crouch skorar hér á móti Frökkum.
Peter Crouch skorar hér á móti Frökkum. Mynd/AP
Peter Crouch hefur skorað 22 mörk í 42 A-landsleikjum fyrir enska landsliðið en fær oft ekki mikið að spila hjá ítalska þjálfaranum Fabio Capello. Crouch skoraði með sinni fyrstu snertingu í tapinu á móti Frökkum á Wembley á miðvikudaginn.

„Það er eins og ég sé alltaf síðasti kosturinn hjá honum. Ég reyni samt bara að gera eins vel og ég get," sagði Peter Crouch sem hefur aðeins komið við sögu í tveimur landsleikjum síðan á HM. Capello hefur verið að prófa menn eins og Bobby Zamora, Darren Bent, Kevin Davies og Andy Carroll á þessum tíma.

„Ég bjóst ekki við að fá að spila á miðvikudaginn en þegar það er kallað á þig á bekknum þá verður að láta til þín taka og besta leiðin til þess er að skora mark. Ég stóð mig vel á móti Frökkum, ég er að sjálfsögðu ósáttur með tapið en ég gat bara gert mitt í að breyta því," sagði Crouch sem kom ekki inn fyrr en á 85. mínútu leiksins en þá var staðan orðin 2-0 fyrir Frakka.

„Þjálfarinn hefur ekki talað við mig um mitt hlutverk í liðinu en ég hef alltaf sagt að hans ákvarðanir eru hans ákvarðanir. Ég get bara skilað mínu á þeim tíma sem ég fær en vonandi hef ég látið hann fá eitthvað til að hugsa um, sagði Crouch en hann hefur skorað 8 af 22 landsliðsmörkum sínum undir stjórn Capello.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×