Erlent

Bernie Maddoff var lúbarinn í fangelsinu

Þegar allt lék í lyndi.
Þegar allt lék í lyndi.

Heimsins frægasti svikahrappur seinnig tíma, Bernie Maddoff, sem afplánar 150 ára fangelsi fyrir gríðarlega umfangsmikið svindl fyrir kreppu, var lúbarinn af samfanga í desember síðastliðnum. Hann var í raun svo illa laminn að færa þurfti hann á spítala eftir atvikið.

Málið vakti athygli í desember þegar hann var færður á spítala. Þá sögðu yfirvöld að hann hefði dottið úr rúminu sínu. Við fallið átti hann að hafa brotið nokkur rifbein, skorið sig í framan og á höfði auk þess sem nefið hans var brákað eftir fallið mikla.

Hinsvegar greindi The Wall Street Journal frá því í dag að Maddoff var í raun lúbarinn af samfanga sem situr inni fyrir fíkniefnabrot.

Blaðið hefur þetta eftir allnokkrum heimildum innan fangelsisins en yfirvöld neituðu því staðfastlega á sínum tíma að um ofbeldisbrot væri að ræða, auk þess sem verjandi Maddoff vildi aldrei tjá sig um það hvað kom fyrir.

Maddoff var dæmdur fyrir að svíkja 65 milljarða dollara út úr fjölda manns og fyrirtækjum á síðasta ári. Áður hafði hann verið einhver þokkaðasti viðskiptamógúll landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×