Enski boltinn

Carlo Ancelotti: Manchester United er ekki sama liðið án Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea. Mynd/AP
Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, segir að sitt lið eigi skilið að verða enskir meistarar og að Manchester United eigi möguleika á að vinna titilinn án Wayne Rooney. Ítalinn var ánægður með sitt lið eftir 2-1 sigur Chelsea á Old Trafford á laugardaginn.

„Leikmennirnir mínir hafa mikla löngun í að vinna enska meistaratitilinn enda er það orðið langt síðan að þeir unnu deildina síðast. Þeir hafa komið frábærlega til baka eftir tapið á móti Inter og ég hef hrifist mjög mikið af karakter þeirra á síðustu vikum. Þeir hafa komið til baka og spilað mjög góðan fótbolta," sagði Carlo Ancelotti.

„Við erum búnir að spila vel á móti stóru liðunum fjórum en við höfum verið að tapa stigunum ámóti hinum liðunum. Við verðum að halda einbeitingunni því við eigum enn fullt af leikjum eftir," sagði Ancelotti en Chelsea hefur unnið báða leiki sína á móti Manchester United og Arsenal á tímabilinu og getur einnig náð tvennunni á móti Liverpool.

Carlo Ancelotti er ekki bjartsýnn fyrir hönd Manchester United í seinni lið liðsins á móti Bayern Munchen í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

„Það er ekki auðvelt fyrir United að spila sinn leik eftir að hafa misst svona mikilvægan leikmann. Það verður mjög erfitt fyrir liðið í seinni leiknum á móti Bayern, eftir að hafa tapað fyrri leiknum, misst Rooney í meiðsli og tapað svo fyrir okkur," sagði Ancelotti og bætti við:

„Manchester United er ekki sama liðið án Rooney. Hann er frábær leikmaður og það er mjög erfitt að fylla í hans skarð. Berbatov er góður en Rooney er bara allt öðruvísi leikmaður en hann," sagði Ancelotti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×