Enski boltinn

Broughton: Þetta eru réttu mennirnir til að kaupa Liverpool - myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Broughton með Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Liverpool.
Martin Broughton með Roy Hodgson, knattspyrnustjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Martin Broughton, stjórnarformaður Liverpool, segist handviss um að félagið hafi fundið kaupendur við hæfi.

Eins og áður hefur verið fjallað um samþykkti stjórn Liverpool kauptilboð New England Sports Ventures í félagið. NESV er eigandi bandaríska hafnaboltaliðsins Boston Red Sox auk annarra íþróttaliða í Bandaríkjunum.

Hins vegar eru núverandi eigendur, Tom Hicks og George Gillett, ósamþykkir því að taka tilboðinu en þeir eru í minnihluta í stjórn Liverpool.

Þeir munu nú fara með málið fyrir dómstóla og sagði Broughton í samtali við heimasíðu Liverpool, sem má skoða hér, að það væri helst það sem gæti komið í veg fyrir söluna.

„Ef þeir vinna dómsmálið geta þeir komið í veg fyrir söluna," sagði Broughton. „En ég er vongóður um að félagið muni senn fá nýja eigendur."

Tíminn er þó naumur fyrir þá Hicks og Gillett þar sem að tæplega 300 milljóna punda skuld fellur á félagið ef hún verður ekki greidd fyrir 15. október næstkomandi.

„Ég á von á niðurstöðu í dómsmálinu í lok næstu viku. Það er líka hægt að áfrýja úrskurðinum en það tekur einnig stuttan tíma," sagði Broughton.

Hann hafði skýr skilaboð til stuðningsmanna Liverpool. „Haldið trúnni. Við fundum réttu eigendurna. Takk fyrir þolinmæðina," sagði hann.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×