Enski boltinn

Hleb byrjar ferilinn hjá Birmingham á meiðslalistanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aleksandr Hleb í sigurleiknum á móti Frökkum á föstudaginn.
Aleksandr Hleb í sigurleiknum á móti Frökkum á föstudaginn. Mynd/AFP

Aleksandr Hleb, nýi miðjumaðurinn hjá Birmingham City, mun ekki spila sinn fyrsta leik með liðinu á sunndaginn þegar Birmingham mætir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Fyrirliði Hvít-Rússa meiddist í leik með landsliði sínu í undankeppni EM í gær. Aleksandr Hleb og félagar voru þá að spila á móti Rúmeníu og var Hleb skipt útaf um miðjan seinni hálfleik.

„Meiðslin eru ekki mjög alvarleg en Hleb sagði við mig að hann gæti ekki spilað á sunnudaginn. Hann ætti að geta snúið aftur í næstu viku og þarf bara á hvíld og meðferð sjúkraþjálfara að halda til að ná sér hundrað prósent góðum á ný," sagði Bernd Stange, þjálfari Hvít-Rússa eftir leikinn í gær.

Hleb kom til Birmingham á dögunum á eins árs láni frá Barcelona en það hefur lítið gengið hjá honum hjá spænsku meisturunum þar sem hann hefur aðeins spilað 19 deildarleiki frá því að hann kom til liðsins frá Arsenal árið 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×